Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslandsmót og alþjóðlegt mót í sundknattleik

23.05.2019Dagana 23-25. maí nk. verður sundknattleiksveisla í Laugardalslaug.

Síðustu ár hafa meðlimir Sunddeildar Ármanns og Sundfélags Hafnarfjarðar spilað upp á Íslandsmeistaratitilinn í sundknattleik á hverju vori. Einungis tvö lið eru virk í sundknattleik hér á landi og til að gera þennan árlega viðburð stærri lögðust vaskir meðlimir félaganna í vinnu við að setja saman alþjóðlegt sundknattleiksmót sem stækkað hefur hvert ár frá því það var fyrst haldið hér árið 2017.

Í ár verða samtals 10 lið sem taka þátt frá 5 löndum, ef íslensku liðin eru talin með, en samkvæmt heimildum okkar er þetta stærsta sundknattleiksmót sem haldið hefur verið hér á landi, að minnsta kosti frá miðbiki síðustu aldar. Rúmlega 100 erlendir keppendur verða á mótinu en á föstudaginn verður skotist í skemmtiferð í Þórsmörk með hópinn, áður en leikurinn um Íslandsmeistaratitilinn fer fram, sem er áætlaður kl. 19, föstudag 24. maí.

Sunddeild Ármanns er ríkjandi Íslandsmeistari og verður spennandi að sjá hvort bikarinn flytji sig yfir í Hafnarfjörðinn í ár eða verði um kyrrt í Laugardalnum.

Klukkan 14:00 á laugardaginn verður svo leikur úrvalsliðs Íslendinga gegn úrvalsliði erlendra þátttakenda áður en útsláttarkeppnin hefst.

Mótið hefst á fimmtudag kl. 16:00, 19:00 á föstudag og 11:30 á laugardag.

Þátttökulið:
USA:
Pacific Storm, California
Michigan Masters, Michigan
Midwest Misfits, Michigan
Chicago Apostles, Chicago

Svíþjóð:
SPIF Future Stars, Stockholm

Króatía:
Team Val Nude, Zagreb

Þýskaland:
Water Polo Manatees 1, Stuttgart
Water Polo Manatees 2, Stuttgart

Ísland:
Sunddeild Ármanns, Reykjavík
Sundfélag Hafnarfjarðar, Hafnarfjörður

Dagskrá og tímaáætlun leikja má finna hér
Til baka