Beint á efnisyfirlit síðunnar

Eva Margrét og Patrik Viggó settu aftur met

06.04.2019

Öðrum degi af þremur var að ljúka hér á Íslandsmeistaramótinu í 50m laug í Laugardalnum.

Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB og Patrik Viggó Vilbergsson úr Breiðabliki héldu áfram að setja aldursflokkamet en Eva Margrét synti 200m fjórsund á tímanum 2:26,61 og bætti þar 10 ára gamalt telpnamet Eyglóar Óskar Gústafsdóttur. María Fanney Kristjánsdóttir úr SH sigraði greinina á tímanum 2:25,15 og Stefanía Sigurþórsdóttir úr Breiðabliki varð önnur á 2:25,80.

Patrik Viggó Vilbergsson setti þrjú piltamet. í 100m skriðsundi synti hann á tímanum 53,35 sek en gamla metið var frá 2011, 53,82 í eigu Njáls Þrastarsonar.. Kristófer Sigurðsson úr ÍRB sigraði á 51,86 og Dadó Fenrir Jasminuson úr SH varð annar á 53,28.

Patrik var ekki hættur því í 1500m skriðsundi sigraði hann á tímanum 16:03,23 sem er bæting á 5 ára gömlu meti Þrastar Bjarnasonar sem var 16:14,96. Þröstur varð einmitt annar í greininni á 16:15,87. Tími Patriks er einnig undir lágmarki á Evrópumeistaramót Unglinga sem fram fer í Kazan í Rússlandi í júlí í sumar. Millitími Patriks í 800m var 8:33,74 sem bæting á 6 ára gömlu piltameti Arnórs Stefánssonar, sem var 8:35,96.

Eygló Ósk Gústafsdóttir úr ÍBR sigraði 100m baksund á tímanum 1:03,25. Íris Ósk Hilmardóttir úr ÍRB varð önnur á 1:06,60 og Steingerður Hauksdóttir, ÍRB og Stefanía Sigurþórsdóttir úr Breiðabliki urðu jafnar í þriðja sæti á 1:07,60.

Liðsfélagi Eyglóar, Kristinn Þórarinsson sigraði 100m baksund karla á 56,66 sek. Kolbeinn Hrafnkelsson úr SH varð annar á 57,98 og Brynjólfur Óli Karlsson úr Breiðabliki varð þriðji á 59,54.

María Fanney Kristjánsdóttir tók gullið í 200m flugsundi kvenna á tímanum 2:25,63 en Gunnhildur Björg Baldursdóttir úr ÍRB var einungis 4/100 úr sekúndu á eftir henni og í þriðja sæti kom Elín Kata Sigurgeirsdóttir úr Óðni bara 1/100 úr sekúndubroti á eftir henni. Svakaleg keppni.

Bjartur Þórhallsson úr ÍBR sigraði 200m flugsund karla a tímanum 2:16,21. Aron Þór Jónsson úr SH varð annar á tímanum 2:21,70 og Kári Sölvi Nielson úr SH varð þriðji á tímanum 2:23,73.

Við fengum svo frábæra keppni í 100m skriðsundi kvenna þar sem Snæfríður Sól Jórunnardóttir úr AGFS í Danmörku sigraði á tímanum 57,22 en Bryndís Rún Hansen úr Óðni varð önnur á 57,37. Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH varð þriðja á 58,41.

Karen Mist Arngeirsdóttir úr ÍRB sigraði 50m bringusund á tímanum 33,86 sek, þar sem Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir úr SH varð önnur á 34,35 en Amalía Nanna Júlíusdóttir úr Óðni varð þriðja á 34,76.

Í 50m bringusundi karla kom Anton Sveinn McKee fyrstur í mark á tímanum 28,68. Aron Örn Stefánsson úr SH varð annar á 30,71 og Daði Björnsson þriðji á 31,51.

Anton Sveinn sigraði sína aðra grein þegar hann synti 200m fjórsund á tímanum 2:09,22 en Kristinn Þórarinsson varð annar á 2:10,34 og Róbert Ísak Jónsson úr SH þriðji 2:16,08.

Í 1500m skriðsundi kvenna kom Eydís Ósk Kolbeinsdóttir úr ÍRB fyrst í bakkann en hún synti á 17:42,52. Freyja Birkisdóttir úr Breiðabliki var næst á 18:00,98. Bryndhildur Traustadóttir úr ÍA varð þriðja á 18:08,15.

Í lok hlutans voru svo synt 4x100m fjórsund boðsund. Sveit SH sigraði kvennamegin á tímanum 4:24,71. Sveitina skipuðu þær Steingerður Hauksdóttir, Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir, Katarína Róbertsdóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir.

Hjá körlunum voru það einnig SH-ingar sem komu fyrstir í mark. Kolbeinn Hrafnkelsson, Anton Sveinn McKee, Róbert Ísak Jónsson og Dadó Fenrir Jasminuson syntu á 3:55,45. 

Heildarúrslit dagsins og ráslistar morgundagsins (tilbúið kl. 19:15)

Undanrásir síðasta dagsins hefjast kl. 9:30 í fyrramálið og úrslitin 16:30.

Myndir með frétt

Til baka