Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ingibjörg Kristín í 50 metra baksundi

14.12.2018

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH, sem „lagði sundbolinn á hilluna“ fyrir ári síðan fékk nokkrum vikum fyrir ÍM25 áskorun um að fara á HM25 í Kína. Fyrir manneskju með metnað og keppnisskap var þetta auðvelt val, hún gerði sér lítið fyrir, tók fram sundbolinn á ný og náði lágmörkum fyrir HM þegar hún keppti á ÍM25 í nóvember og synti í morgun 50 metra baksund hér í Hangzhou. Ingibjörg Kristín kom í mark á tímanum 0:27,99, sem er heldur lakara en á ÍM25 í nóvember 0:27,95 en hennar besti tími í greininni til þessa er 0:27,42 síðan á EM25 í Kaupmannahöfn í fyrra. Hún lenti í 30. sæti í greininni þannig hún nær ekki að keppa í undanúrslitum í kvöld. Hún nýtur sín greinilega á stórmótum sem þessum, því þrátt fyrir að ná ekki því sem hún ætlaði sér í þessu sundi, kom hún jákvæð og brosandi upp úr lauginni og byrjaði strax að undirbúa sig fyrir morgundaginn.

Íslandsmetið í greininni á Eygló Ósk Gústafsdóttir Fjölni, en það er 0:27,40 frá því á HM25 í Kanada 2016.

Heimsmetið í 50 metra baksundi á Etiene Madeiros frá Brasilíu, en hún setti það á HM25 í Doha 2014.

Úrslitasíða mótsins er hér

Til baka