Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton Sveinn í 16. sæti

11.12.2018

Anton Sveinn McKee sem setti í morgun tvö Íslandsmet í sama sundinu, 100 metra bringusundi, lauk milliriðlum í greininni á tímanum 0:57,94. Hann varð í 16. sæti og komst því ekki í úrslitariðilinn á morgun en til þess þurfti að synda undir 0:57,10.

Anton synti fallegt sund og virðist eiga töluvert uppi í erminni, en segir sjálfur að hann þurfi meiri æfingu til að ná betri árangri.Þetta mót er því góður undirbúningur fyrir næsta ár og segi til um hvað hann þurfi að leggja áherslu á á næstu mánuðum, til að ná lágmörkum á HM50 sem er í Suður Kóreu í júli 2019 og svo lágmörkum fyrir Ólympíuleikana 2020. 

Í úrslitum í 200 metra flugsundi karla var sett mjög glæsilegt heimsmet, en þar börðust fyrrum heimsmethafinn Chad le Clos frá Suður Afríku og Dalya Seto frá Japan sem hafði sigur á tímanum 1:48,24. Gamla metið sem le Clos átti var 1:48,56 frá því í Singapore 2013 og hann synti einnig undir þeim tíma eða á 1:48,32.

Litháinn Danas Rapsys varð heimsmeistari í 400 metra skriðsundi á tímanum 3:34,04 og norðmaðurinn Henrik Christiansen annar á tímanum 3:36,64.

Ástralinn Ariarne Titmus sigraði 200 metra skriðsund kvenna á tímanum 1:51,38 og Katinka Hossau frá Ungverjalandi sigraði 400 metra fjórsund kvenna á 4:21,40.

Myndin sýnir Anton í sundinu í morgun. Myndina tók Simone Castrovillari.

Myndir með frétt

Til baka