Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hrafnhildur með Íslandsmet í fyrsta mótshluta

06.12.2016

Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH byrjaði mótið fyrir Ísland og setti strax í fyrsta sundi Íslandsmet í 50 metra bringusundi.  Hún synti á tímanum 30.64 og varð í 15. sæti inn í milliriðla.  Gamla metið átti hún sjálf, en það setti hún fyrst í Doha fyrir 2 árum 30,67 og svo jafnaði hún það í Hafnarfirði 2014 á ÍM25. 64 keppendur tóku þátt í undanrásum greinarinnar.

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson úr ÍRB og Kristinn Þórarinsson úr Fjölni syntu því næst 100 metra baksund.  Davíð synti á tímanum 0:54,12 og varð í 37. sæti í greininni og Kristinn synti á 0:54,43 og varð í 38. sæti af 74 sundmönnum sem tóku þátt í greininni.  Til þess að komast inn í milliriðla þurfti að synda undir 0:51,61 en Íslandsmetið sem Örn Arnarson ÍRB, setti í Dublin 2003 er 0:51,74.

Viktor Vilbergsson úr SH synti 100 metra bringusund á tímanum 1:01,63 og varð í 56 sæti í greininni af 101 sundmanni. Síðasti tími inn í milliriðla var 0:58,18 , en Íslandsmetið á Jakob Jóhann Sveinsson úr Ægi, sett í Reykjavík árið 2009. Metið er 0:58, 90.

Þá var komið að Eygló Ósk Gústafsdóttur úr Ægi að synda 100 metra baksund. Eygló synti á tímanum 0:58,49 sem gefur henni 20. sætið í greininni. Íslandsmetið í greininni á hún sjálf frá því í Ísrael fyrir ári síðan, 0:57, 42. Til þess að ná inn í milliriðla hefði Eygló þurft að synda undir tímanum 0:58,08. 73 sundkonur reyndu sig í undanrásum.

Síðastur Íslendinga til að synda í þessum fyrsta mótshluta er Kristinn Þórarinsson úr Fjölni.  Hann synti 200 metra fjórsund á tímanum 2:01,36 og varð í 36. sæti af 68 sundmönnum í greininni.  Til þess að komast áfram hefði Kristinn þurft að synda undir 1:56,69.  Íslandsmetið í greininni á Örn Arnarson ÍBR frá því 2003 í Vestmannaeyjum 1:57,91.

Hér á mótinu dæmir einn af þeim íslensku dómurum sem hafa alþjóðleg dómararéttindi.  Það er Haraldur Hreggviðsson, en hann er okkur í sundhreyfingunni að góðu kunnur.  Hann er faðir Erlu Daggar Haraldsdóttur og þar með tengdafaðir Árna Más Árnasonar og hann hefur staðið á bakkanum við dómgæslu í hátt á annan áratug og hefur gífurlega reynslu sem slíkur.  Í þessum fyrsta mótshluta var hann í hlutverki tengiliðar þjálfara við yfirdómara og mótstjórn.

Á mótinu keppa um eða yfir 900 keppendur frá uþb 170 þjóðlöndum.  Ísland hefur ekki alltaf verið með þessu móti, oftar en ekki höfum við einbeitt okkur að Evrópumótinu á þessum tíma, en þar sem virðist vera komin niðurstaða í að Evrópa er með sín mót annað hvort ár á oddatöluári, þá er FiNA með HM hitt árið.  Aðstæður á keppnisstað eru til fyrirmyndar, hér er bráðabrigðalaug sett upp á íshokkívelli og í sama húsi er sett um upphitunarlaug ásamt aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara og nuddara.  Þá er ný sundlaug í næsta húsi við hótelið sem íslenski hópurinn dvelur á sem kemur sér vel, þannig hafa íslendingarnir sloppið við hálftíma rútuferðir fram og til baka undanfarna daga og svo geta þeir sem synda seint að morgni hitað upp í lauginni við hótelið og farið seinna af stað fyrir bragðið.

Undanrásirnar hefjast kl. 09:30 á staðartíma (14:30 á íslenskum tíma) og undanúrslit og úrslitahlutar hefjast kl. 18:30 á staðartíma (23:30 á íslenskum tíma).

Hér er svo að lokum hlekkur á Omega timing en þar birtast úrslitin jafnóðum. Góða skemmtun.

Myndir með frétt

Til baka