Beint á efnisyfirlit síðunnar

HM 2016 í Kanada

04.12.2016

Næsta þriðjudag 6. desember hefst Heimsmeistaramót í sundi - í 25 metra braut. Íslensku keppendurnir eru mættir til Windsor í Kanada ásamt landsliðsþjálfara, sjúkraþjálfara og liðstjóra.  Einnig verður einn íslenskur dómari á mótinu.

Þau Aron Örn Stefánsson SH, Bryndís Rún Hansen Óðni, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson ÍRB, Eygló Ósk Gústafsdóttir Ægi, Hrafnhildur Lúthersdóttir SH, Jóhanna Gerða Gústafsdóttir Ægi, Kristinn Þórarinsson Fjölni og Viktor Máni Vilbergsson SH keppa fyrir hönd Íslands á HM25 og í fyrsta skipti í langan tíma verður hægt að stilla upp boðsundssveitum frá Íslandi í kvenna-, karla- og blönduðum flokkum.

Keppnin hefst eins og fyrr segir næstkomandi þriðjudag og er hefðbundin að því leytinu til að á morgnanna verður keppt í undanrásum en seinni partinn verður keppt í undanúrslitum og úrslitum.  Í undanrásum verður keppt á 10 brautum og 16 komast upp í milliriðlana en í þeim og í úrslitariðlum er synt á átta brautum.  Átta sundmenn komast í úrlsitariðla.

Með í för eru þau Jacky Pellerin landsliðsþjálfari, Unnur Sædís Jónsdóttir sjúkraþjálfari og Hörður J. Oddfríðarson formaður SSÍ en hann er í hlutverki liðsstjóra/fararstjóra hópsins.  Þá verður Haraldur Hreggviðsson dómari á mótinu.  

Þessa helgi í aðdraganda mótsins eru haldnar þrjár ráðstefnur á vegum FINA, Alþjóðasundsambandsins.  Unnur Sædis sækir FINA World Sports Medicine Congress, Jacky situr FINA Swimming Coaches Golden Clinic og Hörður er svo fulltrúi Íslands á FINA World Aquatics Convention.

Mótinu lýkur sunnudaginn 11. desember en hér má sjá ýmsar upplýsingar um mótið, eins og dagskránna og hér er sagt frá nýju appi sem skilar úrslitum beint til þeirra sem eru að fylgjast með.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er þetta myndarlegur og kraftmikill hópur í fatnaði frá Speedo, en Speedó hefur verið aðalstyrktaraðili SSÍ um árabil. Einnig fengu krakkarnir föt og úlpu frá NIKE.

Myndir með frétt

Til baka