Beint á efnisyfirlit síðunnar

Öðrum degi ÍM25 lokið - 4 Íslandsmet í dag

14.11.2015

Öðrum hluta Íslandsmeistaramótsins í 25m laug var rétt í þessu að ljúka. 4 Íslandsmet voru sett í dag og fengum við að sjá mörg hörkuspennandi úrslitasund.

Í morgunhlutanum var synt í 4x50m blönduðu boðsundi en þar synda 2 konur og 2 karlar saman í sveit. A sveit SH bætti þar eigið Íslandsmet í greininni þegar hún synti á tímanum 1:47,55 sem er bæting á fyrra meti um 14/100 úr sekúndu en það var var í eigu sveitar Ægis. Sveit­ina skipuðu Kol­beinn Hrafn­kels­son, Hrafn­hild­ur Lúth­ers­dótt­ir, Aron Örn Stef­áns­son og Kar­en Sif Vil­hjálms­dótt­ir.

Hrafnhildur setti svo Íslandsmet í 100m fjórsundi í úrslitunum seinni partinn þegar hún synti til sigurs á tímanum 1:00,63 sem er bæting á meti Eyglóar Óskar Gústafsdóttur um 86/100 úr sekúndu. 

A sveit SH bætti svo Íslandsmetið í 4x100m fjórsundi kvenna þegar þær syntu á tímanum 4:17,43 og bættu þar þriggja ára gamalt með sem SH átti einnig 4:19,86. Sveitina skipuðu þær Katarína Róbertsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir, María Fanney Kristjánsdóttir og Karen Sif Vilhjálmsdóttir.

Strákarnir hjá SH létu sitt ekki eftir liggja og bættu Íslandsmetið í 4x100m skriðsundi en þeir sigruðu greinina á tímanum 3:24,25 en gamla var 3:25,63. Aron Örn Stefánsson, Kolbeinn Hrafnkelsson, Viktor Máni Vilbergsson og Predrag Milos skipuðu sveitina.

Við óskum þessum einstaklingum innilega til hamingju með árangurinn og minnum á að undanrásir hefjast aftur í fyrramálið kl. 10 og úrslit kl. 16. 

Úrslit og ráslistar birtast hér undir Upplýsingar

 

 

Myndir með frétt

Til baka