Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ferð á Egilsstaði í september.

11.11.2015

Á vormánuðum var planað að SSÍ ásamt sundfólki færi austur á land til að halda fræðslu og skemmtihelgi. Veðurguðirnir voru okkur ekki hliðhollir þá og skelltu í ágætt óveður þegar planað var að fara. Í framhaldi var ákveðið að bíða fram á haustið með förina. Í byrjun október var svo blásið til farar. Að þessu sinni fóru Ingi Þór Ágústson og Ingibjörg Kristinsdóttir fyrir hönd fræðslunefndar, Ólafur Baldursson fyrir hönd dómaranefndar og sundmennirnir Karen Sif Vilhjálmsdóttir og Kristinn Þórarinsson. Verkefnið var unnið í samvinnu við skrifstofu ÚÍA og félög á Austurlandi. Dagurinn var í alla staði frábær, Kristinn og Karen Sif voru með landæfingu og spjall við sundmennina á meðan Ingibjörg og Ingi Þór fóru með þjálfara og aðra fullorðna í smá spjall um uppbyggingu sundárs, hvað það þýðir að vera sundforeldri og annað sem nauðsynlegt er að vita þegar starfað er innan sundhreyfingarinnar. Ingi Þór var svo með létta sundæfingu með krökkunum og fór yfir nokkur tækniatriði. Eftir hádegi var svo skellt í sundmót þar sem allir fengu að keppa og hafa gaman. Krakkarnir stóðu sig með stakri prýði og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni. Það  er alveg ljóst að mikil gróska er í sundi  á Austurlandi því 9 manns tóku þátt í dómaranámskeiði sem haldið var i tengslum við ferðina auk allra þeirra sem komu og tóku þátt sem foreldrar, þjálfarar og sundmenn. Ólafur Baldursson sá um dómaranámskeiðið og fengu dómaranemar verklega kennslu á mótinu.

 

 

Myndir með frétt

Til baka