Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þakkir til ykkar allra

08.06.2015

Fyrir hönd Sundsambands Íslands þakka ég öllum þeim sem á einhvern hátt komu að sundkeppninni á Smáþjóðaleikunum, fyrir þeirra framlag.

Þið öll sem buðu fram vinnu ykkar sem sjálfboðaliðar, til dómgæslu, tæknivinnu, verðlaunaveitinga, umferðarstýringar, veitingasölu og fleiri starfa, bæði í aðdranda og á leikunum sjálfum.  Takk kærlega fyrir ykkar ómetanlega starf.  Án ykkar hefði sundkeppnin verið svipur hjá sjón.

Þið öll sem tókuð þátt í að undirbúa sundlið Íslands á leikunum beint og óbeint.  Takk kærlega fyrir ykkar vinnu, sem gerði okkur kleift að senda til keppni sterkt og samhent lið á leikunum.

Þjálfarar, sjúkraþjálfari, flokkstjóri sundliðsins og sundliðið allt.  Takk kærlega fyrir skemmtunina og árangurinn.  Sundhreyfingin fylgdist stolt með ykkar undirbúningi og árangri.

Þið sem komuð til að horfa á sundkeppnina og hvetja íslenska keppendur.  Takk kærlega fyrir stuðninginn á heimavelli, hann skilaði sér og við búum að honum áfram.

Starfsfólk Laugardalslaugar.  Takk kærlega fyrir frábæra samvinnu og útsjónarsemi, ykkar starf er góður bakhjarl sundhreyfingarinnar.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg. Takk kærlega fyrir samstarfið, áhugann og metnaðinn sem smitaði út til okkar hinna.

Mannauðurinn sem hreyfingin býr að og blómstraði á leikunum er ómetanlegur. Það er því von mín og vissa að starf ykkar allra á Smáþjóðaleikunum 2015, skili okkur fram á við í uppbyggingu sundíþróttarinnar á Íslandi.

Fyrir hönd Sundsambands Íslands

Hörður J. Oddfríðarson

Formaður SSÍ
Til baka