Beint á efnisyfirlit síðunnar

ÍRB Aldursflokkameistari í sundi 2014

15.06.2014

Nú seinnipartinn í dag lauk Aldursflokkameistaramótinu í sundi 2014 sem haldið var um helgina í Reykjanesbæ.

ÍRB höfðu titil að verja og stóðu þau svo sannarlega undir væntingum og stóðu uppi sem sigurvegarar með 1069,5 stig á meðan Ægiringar með 536 stig og SH með 458 stig, enduðu í öðru og þriðja sæti. 

Fjögur aldursflokkamet voru slegin á mótinu en Karen Mist Arngeirsdóttir bætti telpnametin í 50m og 100m bringusundi og var svo meðlimur í telpnasveit ÍRB sem setti met í 4x50m fjórsundi og 4x100m fjórsundi telpna. Ásamt Kareni syntu þær Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Gunnhildur Björg Baldursdóttir og Stefanía Sigurþórsdóttir í sveitinni. 

Á lokahófinu í kvöld voru svo veitt verðlaun fyrir bestu afrek mótsins í aldursflokkunum. 

Í flokki hnokka og hnáta var valið eftir stigahæsta sundi skv. FINA stigum.

Stigahæsta sund hnáta á mótinu synti Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB þegar hún synti 200m fjórsund á tímanum 3.04,66 og hlaut fyrir það 307 FINA stig.

Stigahæsta sund hnokka á mótinu synti Teitur Þór Ólafsson úr Ægi þegar hann synti 200m skriðsund á tímanum 2:47,23 og hlaut fyrir það 209 FINA stig. 

Bæði fengu heyrnatól frá Epli að gjöf fyrir árangurinn.

Í flokki sveina og meyja er valið eftir samanlögðum stigum hjá sundmanni í 400m skriðsundi, 200m fjórsundi og stigahæstu grein þar utan skv. FINA stigum.

Stigahæsti sveinninn var Halldór Björn Kristinsson úr Ægi en hann hlaut samanlagt 853 stig fyrir 400m skriðsund, 200m fjórsund og 400m fjórsund.

Stigahæsta meyjan var Diljá Rún Ívarsdóttir úr ÍRB en hún hlaut samanlagt 1521 stig fyrir 400m skriðsund, 200m fjórsund og 100m fjórsund.

Bæði fengu viðurkenningarskjöld frá SSÍ og heyrnatól frá Epli.

Í flokki drengja og telpna er valið eftir samanlögðum stigum í þremur stigahæstu sundum skv. FINA stigum.

Stigahæsti drengurinn var Brynjólfur Óli Karlsson úr Breiðablik en hann hlaut samtals 1545 stig fyrir 400m skriðsund, 400m fjórsund og 200m baksund.

Stigahæsta telpan var Harpa Ingþórsdóttir úr SH en hún hlaut samtals 2035 stig fyrir 200m, 400m og 800m skriðsund.

Bæði fengu viðurkenningarskjöld frá SSÍ og iPod Shuffle frá Epli.

Í flokki pilta og stúlkna er valið eftir samanlögðum stigum í tveimur stigahæstu sundum skv. FINA stigum.

Stigahæsti pilturinn var Ólafur Sigurðsson úr SH en hann fékk samtals 1204 stig fyrir 400m og 1500m skriðsund. 

Stigahæsta stúlkan var Sunneva Dögg Friðriksdóttir úr ÍRB en hún fékk samtals 1437 stig fyrir 200m og 400m skriðsund.

Hlutu þau bæði viðurkenningarskjöld frá SSÍ og iPad mini frá Epli.

Minningarbikar og minningarsjóður Óla Þórs.

Árið 2010 var settur í gang farandbikar til minningar um Ólaf Þór Gunnlaugsson sem var sundmaður, sundþjálfari, sundkennari og driffjöður í sundíþróttum um mjög langt skeið. Hann starfaði hjá mörgum félögum, ma KR, Keflavík, Vestra og svo síðast Fjölni. Fjölskylda Ólafs gaf þennan bikar og gefur árlega eignarbikar sem fylgir farandgripnum.

Jafnframt var settur í gang minningarsjóður um Óla Þór í reglugerð um hann segir:

„Veita skal árlega úr sjóðnum, í fyrsta skipti árið 2011, við lok Aldursflokkameistaramóts Íslands AMÍ. Stjórn sjóðsins skal veita þeim sundmanni sem ávinnur sér Ólafsbikarinn styrk úr sjóðnum. Þá skal stjórn sjóðsins veita amk einum fötluðum sundmanni styrk úr sjóðnum.“

Árið 2014 fær Harpa Ingþórsdóttir úr SH, Ólafsbikarinn og fær jafnframt styrk úr minningarsjóðnum. Það voru börn Óla Þórs, Ólafur Páll og Ingunn sem afhentu bikarinn.

Már Gunnarsson, ÍRB fær einnig styrk úr sjóðnum en hann er 15 ára sundmaður sem keppir einnig í flokki fatlaðra.

Við þökkum ÍRB kærlega fyrir samstarfið á mótinu en þau eiga mikið hrós skilið fyrir góða framkvæmd.

Lokastigastaða AMÍ 2014 lítur svona út:

1.     ÍRB                          1069,5 stig

2.     Ægir                        536

3.     SH                            458

4.     Breiðablik               353,5

5.     Óðinn                      249

6.     KR                            180

7.     Fjölnir                     155

8.     ÍA                             126,5

9.     Ármann                  81,5

10.  UMFA                     70

11.  ÍBV                          44

12.  Rán                          20

13.  Stjarnan                  8

14.  Hamar                    7

15.  UMFB                     4

16.  Vestri                      3

 

Myndir með frétt

Til baka