Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslenskt boðsundsbrons eftir dag tvö

08.12.2013

Fyrsta sund Íslendinga í úrslitum þennan daginn átti hún Bryndís þegar hún stakk sér til sunds í 100m skriðsundi. Hún synti á 59,42 og endaði í sjötta sæti.

Aron Örn var næstur í 100m skriðsundi karla og endaði fimmti á tímanum 51,96.

Nanna Björk synti svo 100m flugsund og endaði sjötta á tímanum 1:08,08, sem var þó bæting frá því í morgun.

Íris Ósk var næst og synti flott sund í 400m fjórsundi. Hún synti á 5:01,48 sem hefði gefið henni brons ef hún hefði ekki verið dæmd ógild fyrir þjófstart. Það skrítna var að enginn tók eftir neinu óeðlilegu við startið. Eftir að hafa séð endurtekningar frá upptöku Ríkissjónvarps Færeyja var ennþá nokkuð erfitt að greina hvað það var sem orsakaði dóminn.

Íslendingar áttu svo boðsundssveitir í 4x200m skriðsundi. Kvennasveit í yngri flokki og karlasveit í eldri flokki. Kvennasveitin synti á 8:46,95 og endaði í fjórða sæti. Sveitina skipuðu Sunneva Dögg, Bryndís, Birta María og Íris Ósk.

Karlasveitin náði svo þriðja bronsi Íslendinga á mótinu þegar þeir syntu boðsundið á 7:47,32. Hilmar Smári, Kristófer, Predrag og Aron Örn skipuðu sveitina.

Ágætum degi lokið en kannski örlítil vonbrigði með að hafa ekki krækt í fleiri verðlaun. En það er ekkert sem stöðvar okkur og höfum við fylgdarfólk fulla trú á að lokadagurinn verði okkar dagur.

Til baka