Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nýtt sundár að hefjast - stjórn SSÍ hittist á fundi í gær

15.08.2013Stjórn SSÍ hittist á fundi í gærkvöldi til að halda áfram undirbúningi fyrir næsta sundár sem hefst á morgun 16. ágúst.  Á fundinum var farið yfir reglugerðir AMÍ, UMÍ, ÍM50 og 25 ásamt ábendingum sem hafa borist til stjórnar um úrbætur.  Formanni SSÍ var falið að setja breytingar í texta og senda til kynningar í sundfélögum og deildum. Síðan verða reglugerðirnar staðfestar formlega í stjórn á næsta fundi hennar.  Sama afgreiðsla var á tillögu um Íslandsmót félaga.  Ýmsar tillögur sem lúta að greinaröðun, lágmörkum og fleiru verða bornar undir fund þjálfara og fund landsliðsnefndar í september.

Þá var atburðadagatalið fyrir sundárið 2013 - 2014 lagt fyrir og yfirfarið.  Það er ljóst að ekki er hægt að gefa út endanlegt atburðadagatal fyrr en eftir þing Evrópska sundsambandsins. Núverandi útgáfa verður send til félaga til kynningar og yfirferðar og svo birt hér á heimasíðu SSÍ á föstudag.

Lágmörk SSÍ móta, þe AMÍ, UMÍ, ÍM25 og ÍM50, voru til umfjöllunar.  Stjórn SSÍ hafði sent beiðni á þjálfarahópinn um tillögur að lágmörkum fyrir mótin.  Engar tillögur bárust frá hópnum en fyrir liggur tillaga landsliðsþjálfara sem hann hefur unnið í samvinnu við aðra.  Stjórn samþykkti fyrir sitt leyti tillögurnar og þá hugmyndafræði sem þar kemur fram, en telur rétt að staðfesta ekki lágmörkin endanlega fyrr en eftir ráðstefnu þjálfara og fund landsliðsnefndar í september.  Tillögurnar verða sendar til félaga í dag og á morgun til kynningar.  Sömu afgreiðslu fékk tillaga um lágmörk og viðmið landsliðsverkefna.

Farið var yfir umsóknir um mótahald fyrir SSÍ og þær afgreiddar.  Fyrir liggur ákvörðun um að leita samninga við félög um að halda ÍM25, IMOC, AMÍ og UMÍ.  Framkvæmdastjóra var falið að ræða við þau félög sem í hlut eiga.  Engar umsóknir bárust um að halda ÍM50, 5km mót, og Bikarmeistaramót.  ÍM50 og 5km mót verða því í Laugardalslaug, en samþykkt að leita til félags um að halda bikar.

Í deiglunni er fjáröflunarverkefni sem ætlað er að vekja athygli á sundíþróttum og afla SSÍ fjármuna.  Þetta verkefni verður kynnt  á næstu dögum og stjórn SSÍ telur mikilvægt að sundfélög og deildir sjái sér fært að aðstoða við framkvæmd verkefnisins þegar þar að kemur.

Undir liðnum önnur mál var rætt um að taka verkefnalistann frá vinnufundi stjórnar upp á septemberfundi auk þess sem rætt var um mikilvægi þess að þjálfa keppnisfólkið okkar og aðra sem taka þátt í verkefnum í samskiptum við fjölmiðla.

Á fundinum kvaddi stjórnarmaður Karen Malmquist sér hljóðs og óskaði eftir leyfi frá stjórnarstörfum í óákveðinn tíma af persónulegum ástæðum.  Stjórn SSÍ varð fúslega við þeirri beiðni og óskar Karen velfarnaðar og hlakkar til að fá hana til starfa á ný.  

Til baka