Beint á efnisyfirlit síðunnar

Flottur árangur á fyrsta degi ÍM25

12.11.2021

Fyrsti dagur á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug fór vel af stað í morgun en þá voru syntar undanrásir í 12 greinum auk þess sem 4x50m fjórsund í blönduðum flokki fór fram í beinum úrslitum.

Tvö aldursflokkamet féllu í morgun. Daði Björnsson úr SH bætti piltametið í 100m bringusundi þegar hann synti greinina á 1:01,90 en gamla metið var 1:02,06. Fannar Snævar Hauksson úr ÍRB bætti svo piltametið í 100m flugsundi þegar hann synti á tímanum 55,66. Hið gamla var 55,77 og hafði staðið frá árinu 2008.

Í úrslitahlutanum bætti Sunna Arnfinnsdóttir úr Ægi 12 ára gamalt telpnamet Eyglóar Óskar Gústafsdóttur í 100m fjórsundi en hún synti á tímanum 1:06,39. Met Eyglóar var 1:06,64. 

Piltametið í 100m flugsundi stóð ekki lengi því í úrslitariðlinum bætti Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH met Fannars um 72/100 úr sekúndu þegar hann varð þriðji í greininni á tímanum 54,94. 

Heimsmeistaramótið í 25m laug sem haldið verður í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum í miðjum desember. Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH fór undir B-lágmark á mótið þegar hún sigraði 50m skriðsund á tímanum 25,08 en lágmarkið er 25,29. 

 

Myndir með frétt

Til baka