Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fjarþjálfun meðan sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu eru lokaðar

14.10.2020

Í síðustu viku var því beint til SSÍ og allra sérsambanda ÍSÍ að fara að tilmælum sóttvarnarlæknis og gera tímabundið hlé á öllum æfingum og keppni frá 8. til 19. október.

Við hjá SSÍ höfum áður þurft að leita lausna í þröngri stöðu og munum við áfram gera allt sem í okkar valdi stendur til að liðka fyrir æfingum og keppni sundfólks.

Sundsambandið fékk til liðs við sig líkamsræktar stöðina Hreyfingu og Vöku Rögnvaldsdóttur, en Vaka er með doktorspróf í íþrótta- og heilsufræði frá HÍ og hefur verið þjálfari hjá Hreyfingu um árabil. Hún fékk svo til liðs við sig fleiri íþróttafræðinga og sjúkraþjálfara til að gera myndbönd með æfingum sem henta sundfólki, en Vaka þekkir vel til æfinga sundfólks eftir að hafa unnið með afrekshópum SSÍ.

Með samningnum vildi SSÍ bjóða sundfólki sem náð hefur 13 ára aldri og eru skráðir iðkendur hjá sundfélagi á höfuðborgarsvæðinu upp á markvissa fjarþjálfun frá fagaðilum á meðan sundlaugar verða lokaðar. Þjálfunin fer fram eins og hver önnur fjarkennsla sem flest okkar hafa þurft að tileinka sér í því ástandi sem nú gengur yfir.

Höldum áfram að vanda okkur og munum að samstaða er besta sóttvarnaraðgerðin !

Myndir með frétt

Til baka