Beint á efnisyfirlit síðunnar

Eygló Ósk náði sér ekki á strik

04.12.2019

Eygló Ósk Gústafsdóttir var annar Íslendingurinn til að hefja keppni hér í Glasgow á EM25. Hún synti 100 metra baksund, sem er hennar besta grein og endaði í 24. sæti sem dugar henni ekki inn í milliriðla í kvöld. Tíminn hennar 1:00;38 sem er um hálfri sekúndu frá tímanum hennar á ÍM25 í nóvember.

Að loknu sundi var Eygló Ósk þreytt og sagðist ekki hafa náð upp hraða. Aðspurð um hvað hefði komið upp á sagði hún að ekkert sérstakt hefði komið upp, hún hefði fundið það strax í upphafi sunds að þetta væri þungt og hún hefði ekki náð tökum á vatninu. Í stuttu spjalli á leið til búningsklefa sagði Eygló einnig að hún væri búin að vinna mjög mikið með styrktarþjálfara undanfarið og hún gæti orðið hreyft sig eðlilega, þannig að nú væri komið að hraðaþjálfun.

Hennar besti árangur til þessa í þessari grein er Íslandsmetið hennar sem hún setti í Netanya í Ísrael 2015 á EM25. Það dugði henni til bronsverðlauna á því móti. Eins og allir vita hefur hún verið að fást við meiðsli í baki undanfarin ár, en hefur verið á uppleið á þessu ári. Hún synti greinina í janúar á 1:03,10, september á 1:01,10 og svo fór hún undir mínútuna á ÍM25 þann 9.nóvember á þessu ári þegar hún synti á 59,94 sekúndum.  Árangurinn í morgun eru því einhver vonbrigði en það jákvæða er að Eygló Ósk virðist vera búin að vinna sig í gegnum meiðslin sem hafa háð henni. Það veit á gott.

Hún á eftir að synda 200 metra baksund á föstudaginn og svo 50 metra baksund á laugardag.

Til baka