Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton með tvö Íslandsmet í bringusundi

21.07.2019

Anton Sveinn McKee stakk sér fyrstur til keppni á Heimsmeistaramótinu í 50 metra laug hér í Gwangju þegar hann synti í nótt 100 metra bringusund.  Tíminn sem hann synti á er 1:00,32 sem er nýtt Íslandsmet. Gamla metið átti hann sjálfur, það var 1:00,33, sett í Svartfjallalandi á Smáþjóðaleikunum nú í lok maí.  Ólympíulágmarkið í greininni er 0:59,93 og því vantar 39/100 úr sekúndu til að ná því.

Það kom engum á óvart að Bretinn Adam Peaty varð fyrstur inn í milliriðla á tímanum 0:57,57 en hann á mótsmetið í greininni, 0:57,47 frá því 2017 í Búdapest og hann á líka Evrópu- og heimsmetin, 0:57,10 frá því á EM50 í Glasgow í fyrra. Norðurlandametið, 0:58,71 á Alexander Dale Oen sem sem hann setti á heimsmeistaramótinu í Shanghai 2011.

En Anton gerði betur, hann setti í þessu sundi jafnframt Íslandsmet í 50 metra bringusundi þegar hann náði millitímanum 27,66. Hann átti gamla metið þar einnig en það var 27,73. Þetta gerði hann einnig í Hangzhou í Kína á HM25 í desember síðastliðnum. Tók bæði metin í sama sundinu.

Anton Sveinn var jákvæður eftir sundið en sagðist hafa ætlað sér meira en þetta. Hann á eftir að synda 50 metra bringusund og 200 metra bringusund síðar í vikunni.

Til þess að ná inn í milliriðla hefði Anton þurft að synda á 0:59,75. Hann endaði í 24. sæti í greininni.

Á morgun synda þau Eygló Ósk Gústafsdóttir og Kristinn Þórarinsson í 100 metra baksundi.

Myndir með frétt

Til baka