Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þing FINA

20.07.2019

Þing FINA er alltaf haldið í tengslum við Heimsmeistaramótið í sundíþróttum, annað hvert ár. Einu slíku lauk hér í Gwangju í Suður Kóreu í gær. Þingið gekk mjög vel og gætti mikillar eindrægni í störfum þess. Það má segja að sá órói sem hefur einkennt FINA og samskipti þess við LEN og önnur álfusamtök séu mjög á undanhaldi.

Fram kom á þinginu að fjárhagsstaða FINA er mjög sterk og mikið fé hefur verið lagt í ýmis þróunarverkefni víða um heim. Verðlaunafé hefur hækkað töluvert og þeim fjölgað sem eiga möguleika á slíkum verðlaunum.

Þá voru gerðar ýmsar lagfæringar á lögum og reglum FINA.

Í því sem kallað er FINA Constitution voru gerðar töluverðar breytingar. Þar stóð helst uppúr að nú þurfa allir þeir sem sækjast eftir sæti í stjórn FINA að vera tilnefndir og njóta stuðings heimalands síns og að auki hafa stuðning frá fjórum öðrum löndum í sömu heimsálfu. Þetta er eitt af því sem hefur valdið miklum ágreiningi innan sambandsins á undanförnum árum, en nú hefur náðst samkomulag milli fulltrúa heimsálfanna hvernig beri að haga þessu. Um leið var ákveðið að setja á fót sérstaka kjörnefnd sem fylgist með því m.a. að frambjóðendur fari að reglum í aðdraganda þings og kosninga.

Í grein C.1 var gerð breyting til að taka af allan vafa að FINA er æðsti aðili allra sundíþrótta í heiminum.

Í greinum C.3.1 til C.3.21 voru gerðar ýmsar orðalagsbreytingar og í C.4. er tekinn af allur vafi um að FINA er algerlega sjálfstætt og hlutlaust í stjórnmálum og það tekið skýrt fram að pólitísk afskipti eða mótmæli verði ekki liðin á viðburðum FINA.

Í grein C.6 er áréttað að enska er það mál sem ræður úrslitum þegar þarf að úrskurða samkvæmt reglum FINA, þó heimilt sé að þýða reglurnar á önnur tungumál.

Í C.7.1 til C.7.6 eru gerðar orðalagsbreytingar en í C.8.1 er bætt við nokkrum greinum um skyldur aðildarsambanda FINA. Þar er gert að skyldu að sækja þing FINA og fleira. Í C.8.2 er á svipaðan hátt áréttað að aðildarlöndunum beri að fara að reglum FINA, að reglur þeirra séu í samræmi við reglur FINA og tryggja að til séu ákvæði um hvernig eigi að bregðast við ef ósamræmi kemur upp. Þá er gert skylt að aðildarsamböndin viðurkenni og taki upp tilskipanir FINA og gæta þess að þau félög sem eiga aðild að landssamböndunum geri slíkt hið sama. Undir þessum lið er aðildarsamböndum FINA gert skylt að halda aðalfund ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti, þar sem reikningar og skýrslur stjórnar skulu lagðar fram og samþykktar. Þá eiga aðildarsambönd að kjósa í stjórn hjá sér á fjögurra ára fresti. Undir lið C.8.3 er svo tekið fram að einstök aðildarsambönd FINA beri ekki á nokkurn hátt ábyrgð á skuldbindingum FINA.

Í C.10 um brottvikningu aðildarsambanda er bætt við tveimur greinum og í C.11 er fjallað um aðildargjöld.

Í C.12 er fjallað um viðurlög og refsingar og gerðar orðalagsbreytingar til áréttingar.

Í C.13 er fjallað um hvernig FINA er stýrt og í C14 hvernig álfusamtökin eru byggð upp og hvernig þau koma að FINA.

Í C.15 er fjallað um þing FINA og hvernig þau eru framkvæmd.

Í C.16 er fjallað um tækniþing einstakra sundíþrótta inna FINA og í C.17 er fjallað um stjórn FINA.

Í C.17 er fjallað um stjórn FINA og hvernig kosið er í ábyrgðarstöður og undir þeim lið eru breytingarnar sem áður eru taldar upp um hvernig tilnefna ber í stjórn og hver á að sjá um framkvæmd kosninga.

C.18 fjallar um réttindi og skyldur stjórnafólks.

C.19 fjallar um nefndir FINA og hvernig skipað er í þær og hvernig þær starfa. Einnig er fjallað um það í C.20 og C.21.

C.22 og C.23 fjalla annars vegar um lyfjaeftirlit og hins vegar aganefnd, en í C.24 er fjallað um siðanefnd.

C.25 fjallar um eftirlit á fjármunum FINA, C.26 um dómstól eða gerðardóm FINA, C.27 um hvernig lögin skulu birt og að lokum C.28 um hvernig eigi að bera sig að málum ef FINA verður lagt niður.

Í FINA General Rules þá voru GR 4.5 og GR 4.6 sameinaðar í eina stutta grein GR 4.5 sem fjallar um að framfylgja reglum FINA þar sem það á við.

Í FINA Facilities Rules voru gerðar breytingar á nokkrum greinum sem fjalla um hvernig setja á upp laugar fyrir keppni, eitthvað sem við þurfum að setjast yfir hjá okkur. Þá er sett inn gæði vatns í laugum og sett inn sérstök grein um að heimsmet og heimsmet unglinga megi ekki viðurkenna nema tryggt sé að saltmagn í laugarvatninu fari ekki yfir 3gr á lítra. Einnig eru gerðar breytingar á textanum um brautarlínur, en þær eiga ekki lengur eingöngu að afmarka brautir, heldur einnig að minnka ölduáhrif á aðra keppendur. Mjög skýrar myndir fylgja reglunum og fyrir liggur að kynna þær rekstaraðilum sundlauga á Íslandi.

Að lokum var svo farið yfir FINA Doping Control Rules og gerðar smávægilegar lagfæringar í texta í þeim.

Fulltrúi SSÍ á þinginu tók til máls þakkaði stjórn og starfsfólki FINA fyrir góða og árangursríka vinnu, lýsti ánægju með þær breytingar sem gerðar væru og taldi þær flestar til bóta.

Myndir með frétt

Til baka