Beint á efnisyfirlit síðunnar

HM50 - fréttir frá Japan

15.07.2019

Næsta sunnudag eða 21. júlí hefst Heimsmeistaramótið í sundi, í 50 metra laug,í Gwangju í Suður Kóreu.Undarfarna daga hefur íslenska sundlandsliðið dvalið í æfingabúðum í Kyoto í Japan til að venjast tímamismun og undirbúa sig sem allra best fyrir mótið.

Það er skemmtileg tilviljun sem réð því að SSÍ ákvað að senda sundfólkið  til Kyoto. Í Kyoto býr ung íslensk stúlka sem heitir Helena Eliasson og æfir þar „Artistic Swimming/Syncro“. Hún mun keppa fyrir hönd Íslands á „Fina Artistic First Youth World Championship“ í Slóvakíu dagana 26. ágúst – 1.september næstkomandi. Helena er fædd árið 2006 og er því aðeins 13.ára á þessu ári en hún er fyrsti Íslenski keppandinn sem tekur þátt í Syncronized Swimming fyrir Íslands hönd frá upphafi. Þess má geta að Helena á yngri systur, Andreu sem einnig æfir Syncro í Kyoto.

Foreldrar Helenu, þau Ólafur Elíasson og Miwako Eliasson hafa verið SSÍ til halds og traust varðandi allan undirbúning fyrir dvöl liðsins í Kyoto.  Það hefur verið  ómetanlegt fyrir okkur hjá SSÍ að vera með heimafólk til að vera sundfólkinu og fylgdarfólki til halds og traust í framandi landi.   

Á myndinni er sundfólkið okkar frá vinstri, þau Kristinn, Eygló Ósk, Anton Sveinn og Snæfríður Sól ásamt Unni sjúkraþjálfara, Bjarney fararstjóra og til hægri er Will þjálfari Antons og Jacky Pellerin þjálfari.

Með þeim á myndinni eru systurnar Andrea og Helena ásamt móður sinni Miwako.

Til baka