Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton Sveinn heiðraður sem sundmaður ársins

08.01.2019

Síðastliðinn laugardag var stór dagur í Ásvallalaug þar sem saman voru komnir 170 sundkrakkar að taka þátt í "synt á milli stöðva" og við það tækifæri heiðraði SSÍ Anton Svein McKee sundmann ársins 2018. 

Anton Sveinn tók við viðurkenningunni og tók síðan þátt í að miðla þekkingu sinni til sundfólksins sem var í lauginni.  

Við óskum Antoni Sveini innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með honum á nýju ári 2019.

 

Anton Sveinn McKee er 25 ára sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton býr í Boston þar sem hann vinnur og æfir allajafna. Hann sagði fyrr á árinu að þetta fyrirkomulag legðist vel í hann en hann hafði einsett sér að komast á bæði Íslandsmeistaramótin til að ná lágmörkum á bæði EM50 og HM25.

Anton Sveinn stóð sig með miklum ágætum á árinu 2018. Hann synti á Evrópumeistaramótinu í 50m laug í Glasgow í ágúst þar sem hann náði í undanúrslit í 100m bringu og bætti eigið Íslandsmet í greininni. Þá synti hann á Heimsmeistaramótinu í 25m laug í Hangzhou núna í desember og stóð sig gríðarlega vel. Hann tvíbætti Íslandsmetið í 50m bringusundi og bætti eigið Íslandsmet í 200m bringusundi þar sem hann endaði í 10. sæti. Þá náði hann í undanúrslit í 100 bringsundi. Í þeirri grein bætti hann einnig eigið Íslandsmet sem hann hafði sett á ÍM25 í nóvember. 
Anton situr í 21. sæti á heimslistanum í 200m bringusundi í stuttu brautinni og því 24. í 100m bringusundi.

Anton Sveinn er frábær fyrirmynd fyrir annað sundfólk og hefur náð gífurlega góðum árangri í því að blanda saman fullri vinnu og æfingum. Hann hefur metnað fyrir því sem hann tekur sér fyrir hendur og uppsker eftir því. Hann er opinn og kurteis í samskiptum og því vel að titlinum kominn.

Myndir með frétt

Til baka