Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton og Snæfríður sundfólk ársins 2018

21.12.2018

Í samræmi við samþykkt stjórnar SSÍ 20. desember 2018 og samþykktir SSÍ um val á sundfólki ársins er ljóst að Snæfríður Sól Jórunnardóttir AGF Svømning í Danmörku, er sundkona ársins 2018 og Anton Sveinn McKee Sundfélagi Hafnarfjarðar, er sundmaður ársins 2018.

Eftirfarandi viðmið gilda fyrir valið:

  • FINA stig úr bestu grein sundfólksins úr báðum brautarlengdum voru vegin saman
  • Árangur sundfólksins á Íslandsmeistaramótum í báðum brautarlengdum var metinn miðað við úrslit greina
  • Íslandsmet og alþjóðleg met í báðum brautarlengdum voru metin
  • Staðsetning á heimslista í 18. desember 2018 í báðum brautarlengdum var vegin saman
  • Þátttaka í landsliðsverkefnum var metin
  • Árangur í landsliðsverkefnum var metinn
  • Ástundun sundfólksins var metin
  • Íþróttamannsleg framganga sundfólksins var metin
  • Langa brautin gildir 100% og stutta brautin 75% í mati á sundfólkinu


Sundkona ársins 2018 er Snæfríður Sól Jórunnardóttir

Snæfríður Sól Jórunnardóttir er 18 ára sundkona sem býr og æfir í Danmörku í sundfélaginu AGF Svømning. Snæfríður hefur búið í Danmörku síðastliðin 10 ár en byrjaði að æfa sundi í Hveragerði áður en hún hóf skólagöngu undir handleiðslu Magnúsar Tryggvasonar í Hveragerði. Hún fór sem skiptinemi til Ameríku þar sem hún náði miklum framförum í sundinu.

Snæfríður keppti á Ólympíuleikum Ungmenna í Buenos Aires í október. Þar náði hún góðum árangri og endaði m.a. ellefta í 200m skriðsundi. Hún náði einnig lágmarki á Norðurlandameistaramótið og Heimsmeistaramótið í 25m laug en ákvað að einbeita sér að dönsku liðameistarakeppninni í staðinn sem er nýafstaðið. Það skilaði sér í Íslandsmeti í 200m skriðsundi en fyrr á árinu hafði hún tvíbætt Íslandsmetið í greininni í löngu brautinni á Danska meistaramótinu í 50m laug. Snæfríður Sól tók þátt í æfingaverkefni landsliðsins í Tenerife í sumar.

Snæfríður Sól er fagleg þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur náð mjög góðum árangri á árinu og á góða möguleika á þátttöku á Heimsmeistaramótinu í Gwangju í Suður-Kóreu í júlí nk. og Ólympíuleikunum í Tokyo í framhaldinu af því.

Sundmaður ársins 2018 er Anton Sveinn McKee

Anton Sveinn McKee er 25 ára sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton býr í Boston þar sem hann vinnur og æfir allajafna. Hann sagði fyrr á árinu að þetta fyrirkomulag legðist vel í hann en hann hafði einsett sér að komast á bæði Íslandsmeistaramótin til að ná lágmörkum á bæði EM50 og HM25.

Anton Sveinn stóð sig með miklum ágætum á árinu 2018. Hann synti á Evrópumeistaramótinu í 50m laug í Glasgow í ágúst þar sem hann náði í undanúrslit í 100m bringu og bætti eigið Íslandsmet í greininni. Þá synti hann á Heimsmeistaramótinu í 25m laug í Hangzhou núna í desember og stóð sig gríðarlega vel. Hann tvíbætti Íslandsmetið í 50m bringusundi og bætti eigið Íslandsmet í 200m bringusundi þar sem hann endaði í 10. sæti. Þá náði hann í undanúrslit í 100 bringsundi. Í þeirri grein bætti hann einnig eigið Íslandsmet sem hann hafði sett á ÍM25 í nóvember.
Anton situr í 21. sæti á heimslistanum í 200m bringusundi í stuttu brautinni og því 24. í 100m bringusundi.

Anton Sveinn er frábær fyrirmynd fyrir annað sundfólk og hefur náð gífurlega góðum árangri í því að blanda saman fullri vinnu og æfingum. Hann hefur metnað fyrir því sem hann tekur sér fyrir hendur og uppsker eftir því. Hann er opinn og kursteis í samskiptum og því vel að titlinum kominn.

Við óskum þeim Antoni og Snæfríði til hamingju með árangur ársins og titilinn og óskum þeim, sem og öðrum, góðs gengis á árinu 2019.

Til baka