Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton með tvö ný Íslandsmet og syndir í dag

11.12.2018

Anton Sveinn McKee úr SH hóf fyrstur Íslendingana keppni hér á HM25 í Hangzhou í Kína, þegar hann synti 100 metra bringusund. Hann synti á 3. braut í 5. riðli af 8 og kom í mark á tímanum 0:57,57, sem er hans besti tími til þessa og þar með Íslandsmet, en gamla Íslandsmetið hans var 0:58,66 frá því árið 2017 í Berlín. Þá setti hann Íslandsmet í 50 metra bringusundi í leiðinni, en millitíminn hans var 0:26,98. Gamla metið átti Jakob Jóhann Sveinsson en það var 0:27,37 frá árinu 2009.

Með þessu sundi synti Anton Sveinn sig inn í milliriðlana sem fara fram í kvöld (12:04 að degi til á Íslandi), varð tólfti í undanrásum, en 16 bestu sundmennirnir úr riðlakeppninni ná inn í milliriðlana.

Anton Sveinn hefur verið í góðri framför undanfarið, eftir stutta hvíld frá sundi í kjölfar ÓL 2016 hóf hann aftur æfingar með það að markmiði að ná lengra. Aðstæður hans eru töluvert breyttar frá því hann lauk námi í Bandaríkjunum, þar sem vinnan hans kallar á töluverð ferðalög milli staða í Bandaríkjunum. Æfingaplanið hans er því sniðið að því og Anton er mjög agaður í öllum undirbúningi fyrir mót eins og HM.

Heimsmetið í 100 metra bringusundi, 0:55,61, á Cameron van der Brugh frá Suður Afríku sem hann setti í Berlín 2009, mótsmetið er frá því í Doha 2014 0:56,20 en það á Franca da Silva frá Brasilíu.

Það má fylgjast með úrslitum með því að fara inn á síðu Omega Timing, en slóðin er hér



Myndir með frétt

Til baka