Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton Sveinn með nýtt Íslandsmet

03.08.2018

Í undanrásunum nú í kvöld varð Anton Sveinn Mckee 13. á tímanum 1:00,45 sem er nýtt Íslandsmet . Miðað við það er hann í góðu formi og á réttri leið í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Anton Sveinn tók sér leyfi frá sundæfingum eftir ágætan árangur á ÓL í Ríó 2016, en hóf aftur æfingar í byrjun þessa árs með það að markmiði að komast á leikana 2020. Þetta er annað mótið hans á árinu í 50 metra laug, en hann keppti á ÍM50 heima á Íslandi í apríl síðastliðnum.

Anton synti 100 metra bringusund og varð 15. inn í milliriðlana í morgun þegar hann synti á tímanum 1:00,90. Íslandsmetið í greininni er 1:00,53, en það á hann sjálfur frá því á HM50 í Kazan 2015.

Hann býr í Bandaríkjunum, þar sem hann er að vinna til að undirbúa sig fyrir meistaranám í viðskiptafræðum, sem hefst 2020. Hann er á töluverðum þeytingi á milli staða vegna verkefna í vinnunni sinni en skipuleggur sig vel, nýtir hverja stund sem gefst til að halda æfingaáætlun sinni til streitu.

Hann hafði sett sér það markmið að ná undir 1:01,-- á þessu móti og það gekk eftir. Næsta skref er að komast undir mínútuna, því stefnan er sett á úrslitariðil í Tókýó 2020.

Í sundinu í kvöld varð Adam Peaty fyrstur á tímanum 0:58,04 , annar varð James Willby á 0:59,23 og þriðji svo Anton Chupkov á tímanum 0:59,43. Það er vert að hafa þessa tíma í huga þegar við fylgjumst með Antoni Sveini vinna að markmiðum sínum í nánustu framtíð.

Til baka
Á döfinni

22