Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íþróttakonur stíga fram #metoo

12.01.2018

Eins og flestum er efalaust ljóst hefur á undanförnum mánuðum orðið vitundarvakning í okkar samfélagi um ofbeldi hvers konar. Fram hafa komið frásagnir af óheyrilegu ofbeldi í ýmiskonar formi innan starfsstétta og hópa. Í gær voru birtar í fjölmiðlum frásagnir kvenna innan vébanda íþróttahreyfingarinnar. Það er ljóst að innan sundhreyfingarinnar er pottur brotinn, ekki síður en annars staðar í íþróttahreyfingunni og stjórn SSÍ var vakin upp síðast liðið haust þegar frásögn ungrar konu, sem beitt var kynferðislegu ofbeldi innan sundfélags kom fram í fjölmiðlum. Síðan þá hefur stjórn SSÍ unnið að því, í samráði við marga aðila, m.a. Bjarkarhlíð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, að þróa áætlanir um viðbrögð við slíkum atvikum ásamt því að endurbæta það umhverfi sem gæti minnkað líkur á að ofbeldi eigi sér stað innan okkar raða.

Stjórn SSÍ brást við strax í haust þegar Fréttablaðið birti viðtal við unga fyrrum sundkonu, sem hafði orðið fyrir grófri kynferðislegri áreitni af hendi þjálfara síns. Það sem gert hefur verið síðan er eftirfarandi:

  1. Ítrekuð tilkynning um brot viðkomandi þjálfara sem send var til FINA - Alþjóðasundsambandsins, LEN - Evrópska sundsambandsins og aðildarlanda NSF - Norræna sundsambandsins. Þá var sérstök tilkynning send til Hollenska sundsambandsins þar sem þessi þjálfari hefur verið að störfum þar í landi.
  2. Hafin var könnun á því hvort SSÍ hafi borist aðrar tilkynningar um ofbeldi eða áreiti á undanförnum árum og þeim jafnvel ekki sinnt. Ekkert slíkt hefur komið í ljós.
  3. Haft var samband við Hafrúnu Kristjánsdóttur sálfræðing og Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, til að fá aðstoð og ábendingar um rétt viðbrögð og virkar forvarnir. Þessir aðilar hafa verið mjög hjálplegir.
  4. Opnuð hefur verið upplýsingagátt á heimasíðu SSÍ. Gert er ráð fyrir að hún þróist og í hana verði bætt upplýsingum og efni næstu vikur og mánuði.
  5. Tekin hefur verið ákvörðun um að allt forsvarsfólk félaga og þjálfarar fái fræðslu um hverskyns ofbeldi, hvernig eigi að verjast því að það eigi sér stað og hver viðbrögðin þurfa að verða ef ofbeldi á sér stað. Haldin verði listi yfir þau félög sem fá fræðsluna, en ekki síður vakin athygli á þeim félögum sinna því ekki að sækja slíka fræðslu. Kannað verður hvort möguleiki sé á að félög verði sett í einhverskonar keppnisbann sinni þau ekki þessum þætti.
  6. Sent út bréf þar sem óskað er eftir því að forsvarsfólk í sundhreyfingunni taki virkan þátt í að koma á eðlilegu upplýsingaflæði og viðbrögðum vegna þessara mála.

Stjórn SSÍ hittist í gær, fimmtudaginn 11.janúar 2018 og bókaði eftirfarandi:

6. Viðbrögð við ofbeldi innan hreyfingar

a. Upplýsingagátt

i. Búið að opna upplýsingagátt á heimasíðu SSÍ og fyrsta efnið komið þar inn

ii. Meira efni og fleiri hlekkir verða settir þar inn þegar það verður tilbúið

iii. Aga- og siðareglur verða aðgengilegar í upplýsingagáttinni

iv. Gáttin heitir #höfumhátt með tilvísun í byltinguna sem nú á sér stað í

samfélaginu http://www.sundsamband.is/utbreidsla/hofum-hatt-/

v. Stefnt er að því að allir forsvarsmenn sundfélaga og deilda á Íslandi (formenn og þjálfarar) fái kynningu og fræðslu í tengslum við þessi mál og upplýsingar um þá sem hafa fengið fræðslu verði birtar í gáttinni

vi. Skrifstofa SSÍ mun senda kynningu á gáttinni til félaga

b. Aga- og siðareglur

i. Fara yfir Aga- og siðareglur með það fyrir augum að þær gagnist sem forvörn

og viðbragðáætlun vegna þeirra mála sem geta komið upp

ii. Inn í reglurnar þurfa að koma leiðbeiningar um viðbrögð aðila ef brotið er

gegn reglunum og þá einnig möguleg viðurlög eða hvert ber að vísa málum

iii. Þeir sem verða beðnir um að lesa yfir Aga- og siðareglur SSÍ eru:

• Stjórn SSÍ

• Nefndir SSÍ, sérstaklega aga- og siðanefnd, fræðslu-, þjálfara-,

landsliðs- og íþróttamannanefndirnar

• Forsvarsfólk sundfélaga og deilda

• Aðrir sem koma að

iv. Stefnt er að því að þessari endurskoðun verði lokið í enda mars 2018, þannig að stjórn geti staðfest endurnýjaðar Aga- og siðareglur á aprílfundi sínum

Stjórn lýsir ánægju sinni með þá vinnu sem þegar hefur farið fram og fer bjartsýn af stað í áframhaldindi vinnu til að bæta umhverfi íþróttafólks og aðstandenda innan sundhreyfingar

Þá hefur það verið rætt innan stjórnar að setja upp fræðslu fyrir forsvarsfólk félaga, formenn, stjórnarfólk og þjálfara.  Við erum að undirbúa það að fyrir áramót hafi allir þessir aðilar innan sundhreyfingarinnar fengið þessa fræðslu og stefnum að því að það verði ófrávíkjanlegur þáttur í rekstri sundfélaga og deilda að hafa á þann hátt upplýsta stórnendur og starfsfólk.  Slík fræðsla væri endurtekin á hverju ári.

Eins og sjá má er þetta viðamikið verkefni, sem þarf að vera lifandi og í þróun. Því er mikilvægt að vel takist til nú í upphafi. 

Hér fylgja slóðir á heimasíður Bjarkarhliðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, Vinnueftirlitsins og ÍSÍ, en á þessum slóðum má finna margvíslegar upplýsingar tengd ofbeldi af öllu tagi og viðbrögð við því. Þá fylgir einnig slóð á upplýsingagátt SSÍ og slóð á lög og reglur SSÍ þar sem finna má aga- og siðareglur sambandsins.

http://www.vinnueftirlit.is/

https://www.bjarkarhlid.is/

http://www.isi.is/fraedsla/baeklingar/

http://www.sundsamband.is/utbreidsla/hofum-hatt-/

http://www.sundsamband.is/library/Efnisveita/Log-og-reglur/L%C3%B6g_og_regluger%C3%B0ir_SS%C3%8D_apr%C3%ADl_2017_sta%C3%B0fSS%C3%8D_%C3%B3sta%C3%B0f%C3%8DS%C3%8D.pdf bls. 19-23

 

Til baka