Beint á efnisyfirlit síðunnar

Að loknu Norðurlandameistaramóti

05.12.2017

Um síðustu helgi fór fram Norðurlandameistaramót í sundi.  Mótið var að þessu sinni haldið á Íslandi í Laugardalslaug og tókst mjög vel.

Keppt var í eldri flokki 18 ára og eldri karlar og 17 ára og eldri konur. Einnig var keppt í unglingaflokki. Mótið er sett upp sem stigakeppni milli landa. Ísland náði fjórða sæti í opnum flokki og sjötta sæti í unglingaflokki. Íslenska liðið stóð sig vel, allir einstaklingar þar lögðu sig fram um að ná sínu besta og liðsandinn var mjög góður.

Undirbúningsnefndin, undir stjórn Jóns Hjaltasonar varaformanns SSÍ, fór snemma af stað og nýtti sér vel reynsluna frá Smáþjóðaleikunum 2015 og umgjörð mótsins var í þeim anda sem við unnum þá. Gestir okkar frá hinum NSF löndunum voru á því að við hefðum aukið gæði mótsins mjög mikið frá því sem verið hefur og voru mjög ánægð með okkur.

Í kjölfar mótsins verður sundfólkið beðið um að svara könnun um hvernig umgjörð liðsins og þátttaka tókst og þeir sem unnu störfin á mótinu (dómarar og aðrir) beðnir um að svara spurningum um framkvæmd og umgjörð þannig að við getum búið okkur betur undir næstu mót og verkefni.

Fyrir hönd stjórnar SSÍ þakka ég landsliðinu, þjálfurum, fararstjóra og sjúkraþjálfara fyrir þeirra framlag og einnig þakka ég sjálfboðaliðunum, dómurum, tæknifólki, riðlastjórum, hlaupurum og öðrum sem komu að kærlega fyrir sín störf. Án þeirra hefði mótið ekki verið haldið. Að lokum þakka ég undirbúningsnefndinni fyrir störfin í aðdraganda mótsins.

Hörður J. Oddfríðarson

Formaður SSÍ

Myndir með frétt

Til baka