Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslandsmet og piltamet á lokadegi ÍM50

10.04.2017

Í gær lauk Íslandsmeistaramótinu í 50m laug í Laugardalnum.

Karlasveit SH setti nýtt Íslandsmet í 4x100m skriðsundi þegar þeir syntu á tímanum 3:31,10 sem var bæting á 3 ára gömlu meti upp á 38/100 úr sekúndu. Sveitina skipuðu þeir Predrag Milos, Kolbeinn Hrafnkelsson, Aron Örn Stefánsson og Ólafur Sigurðsson. Gamla metið áttu SH-ingar sjálfir.

Þá setti piltasveit Ægis met í sömu grein þegar þeir Hólmsteinn Skorri Hallgrímsson, Hilmir Örn Ólafsson, Bjartur Þórhallsson og Kristján Gylfi Þórisson syntu á 3:45,89. Bættu þeir þar eigið met, sem þeir fjórir settu á ÍM50 í fyrra, um tæpar tvær sekúndur.

Þær Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir syntu báðar undir HM-A lágmörkum á mótinu og þær Bryndís Rún Hansen, Óðni og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH syntu undir HM-B lágmörkum. Katarína Róbertsdóttir úr SH náði lágmarki á Evrópumeistaramót Unglinga í Netanya í júlí.

Viðurkenningar

Á ÍM50 eru veittar sérstakar viðurkenningar fyrir bestu afrek mótsins og einnig afrek á milli íslandsmeistaramóta.
Pétursbikarinn er gefinn í minningu Péturs Kristjánssonar sundkappa úr sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda Péturs. Pétursbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í karlaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands, til loka næsta íslandsmeistaramóts í 50 metra laug.

Pétursbikarinn hlaut að þessu sinni Anton Sveinn Mckee fyrir 200m bringusund sem hann synti í London í maí 2016 á tímanum 2:10,91.

Kolbrúnarbikarinn er gefinn í minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur sundkonu úr sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda og vinir Kolbrúnar.
Kolbrúnarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í kvennaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands, til loka næsta íslandsmeistaramóts í 50 metra laug.

Hrafnhildur Lúthersdóttir vann Kolbrúnarbikarinn að þessu sinni fyrir 200m bringusund sem hún synti í London í maí 2016 á tímanum 2:22:96. 

Sigurðarbikarinn er gefinn í minningu Sigurðar Jónssonar Þingeyings. Gefandi hans er fjölskylda Sigurðar.
Sigurðarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í bringusundi, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands.

Hrafnhildur Lúthersdóttir vann Sigurðarbikarinn að þessu sinni fyrir 100m bringusund á ÍM50 2017. Tími: 1:07,44.

Ásgeirsbikarinn er gefinn í minningu Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrverandi forseta Íslands. Gefandi er forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson.
Ásgeirsbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands.
Það var Hrafnhildur Lúthersdóttir sem hlaut Ásgeirsbikarinn að þessu sinni fyrir áðurnefnt 100m bringusund á ÍM50 2017.

Til hamingju Anton og Hrafnhildur og allir þeir sem náðu árangri á mótinu. 

Sundsamband Íslands þakkar öllum þeim sem tóku þátt á einn eða annan hátt kærlega fyrir keppnina og samstarfið.

Til baka
Á döfinni

21