Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sundfólk ársins - Afhending silfurmerkja

19.12.2014

Í samræmi við samþykktir SSÍ um val á sundfólki ársins er ljóst að Eygló Ósk Gústafsdóttir, Sundfélaginu Ægi, er sundkona ársins 2014 og Anton Sveinn McKee, einnig Sundfélaginu Ægi, er sundmaður ársins 2014.

Eftirfarandi viðmið gilda fyrir valið:
a) FINA stig úr bestu grein sundfólksins úr báðum brautarlengdum voru vegin saman
b) Árangur sundfólksins á Íslandsmeistaramótum í báðum brautarlengdum var metinn miðað við úrslit greina. 
c) Íslandsmet í báðum brautarlengdum voru metin.
d) Staðsetning á heimslista (11. desember 2014) í báðum brautarlengdum var athuguð og metin með. 
e) Þátttaka og árangur í landsliðsverkefnum var metinn. Annars vegar var veginn fjöldi verkefna og hins vegar úrslit greina og í hvaða sæti sundfólkið lenti í greinum sínum.
f) Ástundun sundfólksins var metin. 
g) Íþróttamannsleg framganga sundfólksins var metin.

Stig sundmanna samkvæmt stigatöflu Alþjóða Sundsambandsins (FINA) og staðsetning á heimslista FINA vega hér þyngst.

Eygló Ósk Gústafsdóttir er 19 ára sundkona úr Sundfélaginu Ægi. Hún stundar nám í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og nýtur A-styrks Afrekssjóðs ÍSÍ.
Hún fékk 862 FINA stig fyrir 200m baksund á Opna Danska meistaramótinu í mars á þessu. Þá hlaut hún 890 FINA stig fyrir 200m baksund á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug í nóvember sl. Hún synti 4 greinar til úrslita á ÍM50 í apríl og sigraði 3 þeirra. Í þeirri fjórðu hafnaði hún í öðru sæti. Á ÍM25 í nóvember synti hún 6 einstaklingsgreinar og sigraði þær allar. Eygló setti 9 Íslandsmet á árinu og jafnaði 1. Í 50m laug bætti hún eigið met í 50, 100m og 200m baksundi. Í 25m laug bætti hún eigið met í 100m fjórsundi tvisvar, 200m fjórsundi, 200m baksundi og 100m baksundi tvisvar. Þá jafnaði hún metið í 50m baksundi.
Hún er í 14. sæti á heimslista í 25m laug í 200m baksundi og í sömu grein í 28. sæti á heimslista í 50m laug. Þetta er töluverð bæting frá því í fyrra en þá var hún í 24. og 45. sæti í þessum greinum.
Eygló Ósk tók þátt í HM25 í Doha, Qatar á þessu ári og stóð sig þar með prýði. Þar ber helst að nefna árangur hennar í 200m baksundi. Þar hafnaði hún í 10. sæti og er það einn besti árangur íslenskrar sundkonu á heimsmeistaramóti frá upphafi. 
Hún er reglusöm og dugleg við æfingar, fylgir leiðsögn og mætir vel. Eygló er góð fyrirmynd hvar sem hún kemur fyrir, við æfingar sem og keppni.

Anton Sveinn McKee er 21 árs sundmaður úr Sundfélaginu Ægi en hann stundar nám í The University of Alabama í Bandaríkjunum og er á styrk vegna sundiðkunnar. Hann nýtur B-styrks Afrekssjóð ÍSÍ.
Hann fékk 917 FINA stig fyrir 200m bringusund í Los Angeles í júlí á þessu ári. 
Hann synti ekki á ÍM50 né ÍM25, en meiðsli settu m.a. strik í reikninginn seinni hluta árs.
Anton setti 3 Íslandsmet á árinu. Öll voru sett í 50m laug en þar bætti hann metið í 400m skriðsundi og tvíbætti metið í 200m bringusundi. 
Hann kemur inn á heimslista í 50m laug nr. 22 í 200m bringusundi en þar sem hann á ekki tíma í 25m laug á árinu á það ekki við að þessu sinni.
Anton tók ekki þátt í landsliðsverkefni á árinu vegna aðstæðna í námi sínu og áðurnefndra meiðsla.
Anton er gríðarlega metnaðarfullur og duglegur, hvort sem er í æfingum eða í keppni. Þetta sést helst í staðfestu hans í endurkomu til æfinga eftir meiðsli sem hann hlaut í haust. Hann mætir vel til æfinga og tekur leiðsögn, lagar sig einkar vel að aðstæðum, sýnir íþróttamannslega hegðun og er leiðtogi í hópnum.  

Það var móðursystir Antons, Steinunn Sveinsdóttir, sem tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

 

Í samræmi við samþykktir SSÍ um Heiðursmerki hefur stjórn SSÍ ákveðið að veita eftirtöldum aðilum silfurmerki sambandsins:

Guðmundi Hafþórssyni fyrir framúrskarandi gott starf að málefnum sundhreyfingarinnar, en Guðmundur synti í sólarhring sl. sumar og vakti með því athgli á sundíþróttinni auk þess sem hann hefur verið óþreytandi við að kynna sund, kenna sund og hvetja fólk til að nýta sér sund til heilsubótar.

Yfirliðinu í sundi fyrir að synda Ermarsund í boðsundi en það voru þær Corinna Hoffman, Harpa Hrund Berndsen, Helga Sigurðardóttir, Sædís Rán Sveinsdóttir og Sigrún Þuríður Geirsdótttir sem það gerðu. Sigrún var að synda Ermarsundið í annað sinn á tveimur árum og fékk því silfurmerki SSÍ á síðasta ári.

Um Silfurmerki SSÍ.
Silfurmerki SSÍ skal veita þeim sem unnið hafa framúrskarandi gott starf að málefnum sundhreyfingar eða hafa komið fram fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum vettvangi hennar.
Einnig skulu sundmenn sem náð hafa viðurkenndum alþjóðlegum árangri
hljóta silfurmerkið – og þar með allir þeir sem keppt hafa í sundi á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd.

 

Myndir með frétt

Til baka