Beint á efnisyfirlit síðunnar

Elsie Einarsdóttir borin til grafar

21.10.2014

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)

Þegar kemur að félagsstörfum er fátt betra en að vinna með fólki sem lætur verkin tala, kemur hreint fram, segir meiningu sína og vinnur í takt þegar ákvörðun hefur verið tekin.  Þannig manneskja var Elsie.  Hún vann í sundhreyfingunni við ýmis verk, sem foreldri, sem stjórnarmaður í félagi, sem stjórnarmaður í Sundsambandi Íslands og margt annað.  Hún var hugmyndarík og óhrædd að viðra hugmyndir sem í fyrstu sýn virtust ekki mjög raunhæfar. Hún var fylgin sér og skilaði því sem hún tók að sér með miklum sóma. Hún var hlý og glaðlynd og hún hafði einstaka hæfileika til að láta ekki erfiðleika í persónulegu lífi sínu, trufla samskipti sín við annað fólk. 

Það voru forréttindi að starfa með Elsie í stjórn Sundsambands Íslands. Hún studdi félagið sitt og syni sína í lauginni en hafði getu til að afklæðast félagsbúningnum í störfum sínum fyrir Sundsambandið.

Það er því með virðingu og söknuði sem við í sundhreyfingunni drjúpum höfði og minnust Elsie með þakklæti og hlýju.  Við sendum fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Farðu í friði góða vinkona.

Fyrir hönd Sundsambands Íslands 

Hörður J. Oddfríðarson formaður

Til baka