Beint á efnisyfirlit síðunnar

9 Íslandsmet og 11 aldursflokkamet á ÍM50 - Uppfært

13.04.2014Íslandsmeistaramótinu í 50m laug lauk nú rétt í þessu eftir þriggja daga keppni.

Alls féllu 9 Íslandsmet og 11 aldursflokkamet á mótinu, ásamt jöfnun á Íslandsmeti.

Jóhanna Gerða Gústafsdóttir setti Íslandsmet í 400m fjórsundi þegar hún synti til sigurs í úrslitum á tímanum 4:53,24. Gamla metið átti hún sjálf, 4:53,70 frá því í júlí 2012. Góð bæting hjá henni en Jóhanna hefur æft og keppt í Flórída undanfarin ár.

Karen Mist Arngeirsdóttir, ÍRB hefur nú þríbætt telpnametið í 50m bringusundi eftir að hún synti greinina í úrslitum á tímanum 35,40. Í morgun synti hún á 35,50 sem var einnig bæting á nýsettu meti frá föstudeginum 35,66.

Í 1500m skriðsundi kvenna féllu tvö aldursflokkamet – Sunneva Dögg Friðriksdóttir, ÍRB sigraði á tímanum 17:37,37 sem er bæting á 9 ára gömlu stúlknameti Auðar Sifjar Jónsdóttur; 17:44,70.
Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, ÍRB hafnaði í öðru sæti á tímanum 17:48,38 sem er bæting á telpnameti Sunnevu Daggar; 18:08,04.

Þá kláraði A sveit SH karla daginn á Íslandsmeti í 4x100m fjórsundi þegar þeir syntu á 3:55,08 og bættu þar með gamla metið; 3:56,95 sem einnig var í eigu SH. Það var sett fyrir 3 árum.

Eftir skemmtilegt og gott mót er gaman að gefa nokkur auka verðlaun en á ÍM50 eru gefnir fjórir bikarar fyrir árangur á mótinu og síðastliðið ár.

Sigurðarbikarinn hlýtur sá sem skorar hæst á ÍM50 í bringusundi skv. opinberri stigatöflu Alþjóðlega Sundsambandsins (FINA). Í þetta skiptið hreppir Hrafnhildur Lúthersdóttir þessi verðlaun fyrir Íslandsmet sitt í 100m bringusundi á mótinu.

Kolbrúnarbikarinn hlýtur sú kona sem á stigahæsta sund, skv. töflu FINA, á milli ÍM50 móta. Eygló Ósk Gústafsdóttir tekur þessi verðlaun fyrir Íslandsmetasundið sitt í 200m baksundi fyrir um 2 vikum í Danmörku.

Pétursbikarinn hlýtur sá karl sem á stigahæsta sund, skv. töflu FINA, á milli ÍM50 móta. Anton Sveinn McKee tekur þessi verðlaun fyrir 200m bringusundið sem hann synti í Barcelona í byrjun ágúst á síðasta ári.

Að lokum er það Ásgeirsbikarinn, einnig kallaður Forsetabikarinn, en hann er veittur af Forseta Íslands, til minningar um Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi Forseta Íslands, til þess einstaklings sem á besta afrek á ÍM50 hverju sinni. Eygló Ósk Gústafsdóttir hreppir bikarinn fyrir tímann sinn í 100m baksundi þegar hún tók fyrsta sprett í boðsundi og jafnaði Íslandsmetið sitt sem hún setti í Danmörku fyrir rúmu ári síðan.

Takk fyrir okkur og til hamingju með árangurinn allir saman!

Myndir með frétt

Til baka