Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslandsmeistaramótið í 25m laug hafið - 3 Íslandsmet

22.11.2013Íslandsmeistaramótið í 25m laug í sundi hófst í dag í Ásvallalaug í Hafnarfirði. Undanrásir voru keyrðar í morgun en úrslitahluta dagsins er nýlokið. 

Þrjú Íslandsmet féllu en Eygló Ósk Gústafsdóttir bætti eigið met í 200m baksundi þegar hún synti til sigurs á tímanum 2.06,59. Gamla metið hennar var 2.07,10 frá því í desember 2012. Eygló var þó ekki hætt og setti einnig Íslandsmet í 200m fjórsundi er hún synti á tímanum 2.13,41 og bætti gamla metið sitt frá því í október 2012 um tæpar tvær sekúndur, 2.15,10.

Í lok hlutans bætti svo boðsundssveit Fjölnis 13 ára gamalt met í 4x200m skriðsundi karla. Þeir syntu á tímanum 7.34,50 en gamla metið átti sveit SH, 7.35,34. Sveit Fjölnis skipuðu þeir: Jón Margeir Sverrisson, Kristinn Þórarinsson, Hilmar Smári Jónsson og Daníel Hannes Pálsson.

Þess má geta að á þessu móti eru síðustu forvöð til að ná lágmörkum á NMU og EM25 í næsta mánuði. Þeir sem hafa náð lágmörkum verða tilkynntir í lok móts.

Góður dagur í lauginni á enda og við vonumst eftir öðru eins á næstu dögum.

Undanrásir morgundagsins hefjast kl. 9 í fyrramálið og úrslitin kl. 17.

Myndir með frétt

Til baka