Beint á efnisyfirlit síðunnar

ÁFRAM ÍSLAND

19.11.2013

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu spilar í kvöld einhvern mest spennandi og mikilvægasta leik sem liðið hefur spilað þegar liðið mætir Króatíu.  Ávinningurinn af sigri er óumdeildur, sæti á HM í Brasilíu. 

Svona árangur næst ekki á einni nóttu.  Svona árangur næst þegar allir leggjast á eitt, leikmennirnir, þjálfarateymið, stjórn og starfsfólk KSÍ, félögin og síðast en ekki síst stuðningsfólkið, við hin öll sem ætlum að setjast niður og horfa á leikinn, hugsa hlýlega til strákanna úti í Zagreb og upplifa hvernig liðsheildin skilar okkur áfram.

En þó leikurinn vinnist ekki og liðið komist ekki áfram, hefur íslenska knattspyrnulandsliðið sýnt okkur öllum, hvar sem við stöndum í íþróttastarfinu, að það er allt hægt.  Það er mikill ávinningur fólginn í því, fyrir okkur öll, þegar vel tekst til í hreyfingunni og KSÍ hefur með sínu fólki og sínum félögum haldið vel utan um uppbyggingu yngri flokka, eðlilega endurnýjun og ekki síst tókst einstaklega vel til þegar núverandi landsliðsþjálfari var ráðinn.  Hann hefur leyst úr læðingi mikinn kraft, náð að samhæfa fólk úr ýmsum áttum, haldið hópnum á tánum og blásið þeim í brjóst eftirvæntingu, von og trú á starfinu.  Við sem komum úr öðrum íþróttagreinum getum horft til þessa og lært.

Hvetjum okkar lið áfram, fögnum með því hvernig sem úrslitin verða í kvöld.  Árangurinn er óumdeildur.  

ÁFRAM ÍSLAND

 

Myndina tók Adólf Ingi Erlingsson á Laugardalsvellinum sl. föstudag.

Til baka